Samdráttur íslenska hagkerfisins um 3,7% á fyrsta fjórðungi þessa árs ætti að „hvetja Seðlabankann til þess að lækka vexti um leið og þess er kostur“.

Þetta segir Bjarne Roed-Frederikssen, hagfræðingur hjá danska bankanum Nordea í samtali við Dow Jones.

Hann segir gengisfall krónunnar meginástæðu snarhækkandi verðbólgu hér á landi, og því sé ólíklegt að Seðlabankinn muni hækka vexti frekar. Stýrivextir eru nú 15,5%, sem er hæsta vaxtastig Evrópu og hið hæsta sé litið til allra iðnvæddra landa.

Carl Hammer hjá SEB Enskilda segir jafnframt í samtali við Dow Jones að frekari vaxtahækkanir muni ekki styðja við gengi krónunnar. Hann segir að í stað vaxtahækkunar þurfi að auka traust á íslenskum bönkum sem stríði nú við afar bág fjármögnunarkjör. Sannfæra þurfi markaðsaðila um að stjórnvöld geti séð bönkunum fyrir erlendum gjaldeyri ef neyðarástand skapist. Að sögn Hammer er aukning gjaldeyrisforðans góð leið til að auka trú á krónuna og hæfni íslenskra stjórnvalda til björgunaraðgerða, án þess að refsa íslenskum neytendum frekar með fleiri vaxtahækkunum.