Gjaldeyrisforði kínverska ríkisins minnkaði um 28,6 milljarða dala í febrúar, sem er eilítið minni samdráttur en búist hafði verið við, sem bendir til þess að kínverski seðlabankinn sé að minnka inngrip sín á kínverskum gjaldeyrismarkaði, að því er segir í frétt Reuters.

Það breytir því þó ekki að gjaldeyrisforði kínverska ríkisins hefur minnkað fjóra mánuði í röð og er nú um 3.200 milljarðar dala og hefur ekki verið minni frá því í desember 2011.

Hagfræðingar, sem Reuters hafði áður rætt við, gerðu ráð fyrir því að forðinn hefði minnkað um 30 milljarða dala í febrúar. Gjaldeyrisforði Kína er ennþá sá stærsti á byggðu bóli, en svo hratt hefur gengið á forðann að sumir hagfræðingar hafa spáð því að kínversk stjórnvöld þurfi annað hvort að leyfa gjaldmiðlinum að falla í verði eða að herða gjaldeyrishöft.