Greiningardeild Arion banka gerir gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands að umtalsefni sínu í Markaðspunktum sem birtust í dag og veltir þar upp þeirri spurningu hvað sé viðeigandi stærð gjaldeyrisforða. Undanfarið hefur hreinn gjaldeyrisforði staðist öll helstu lágmarksviðmið.

Í úttektinni kemur fram að sú jákvæða þróun hafi átt sér stað undanfarin tvö ár að svigrúm Seðlabankans til gjaldeyrisforðasöfnunar hafi aukist umtalsvert. Í fyrra hafi hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði þannig numið 272 milljörðum króna en þau hafi verið 111 milljarðar króna árið á undan. Í kjölfarið hefur hreinn gjaldeyrisforði bankans, þ.e. sá hluti forðans sem fjármagnaður er innanlands, styrkst til muna og í lok mars nam hann 396 milljörðum króna og var þá heildarforðinn 735 milljarðar króna.

Erfitt að meta viðeigandi stærð gjaldeyrisforða

Í Markaðspunktunum segir: „Erfitt er að meta hver viðeigandi stærð gjaldeyrisforða er út frá einum sérstökum mælikvarða. Engu að síður eru þrjú viðmið sem gjarnan er horft til í flestum fræðigreinum. Í fyrsta lagi er horft til þess að gjaldeyrisforðinn sé a.m.k. stærri en sem nemur 100% af erlendum skammtímaskuldum (Greenspan-Guidotti reglan). Í öðru lagi er þumalputtaregla að forðinn sé stærri en sem nemur þriggja mánaða innflutningi og í þriðja lagi er gjaldeyrisforðinn metinn sem hlutfall af peningamagni og almennu sparifé.“ Í gögnum greiningardeildarinnar og Seðlabankans meðfylgjandi umfjölluninni má sjá að hreinn gjaldeyrisforði stenst nú öll þessi helstu lágmarksviðmið.

Kostnaðarsamt að reka stóran gjaldeyrisforða

Greiningardeildin bendir hinsvegar á að ýmsar hliðarverkandir muni fylgja ef forðinn haldi áfram að styrkjast. Ber þar helst að nefna kostnaðinn sem fylgir því að eiga forðann og neikvæðan vaxtamun. Fram kom á ársfundi Seðlabankans að kostnaður vegna gjaldeyrisforðans var 18 milljarðar króna árið 2015 en til samanburðar má nefna að eigið fé Seðlabankans var á sama tíma 78,7 milljarðar. Það er því kostnaðarsamt að reka stóran gjaldeyrisforða. Einnig þarf að stýfa af gjaldeyriskaupin til að koma í veg fyrir of hraða aukningu peningamagns í umferð. Hingað til hefur Seðlabankinn annars vegar gefið út innstæðubréf til stýfingar og hins vegar selt eignir Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) en hvort tveggja virðist hafa skilað árangri.

Greiningardeildin bendir því á að ef gjaldeyriskaup Seðlabankans halda áfram með svipuðum takti sé mikilvægt að bankinn haldi áfram að beita mótvægisaðgerðum. Áhugasamir geta kynnt sér samantektina nánar hér.