Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands nam 530 milljörðum króna í lok árs 2014 og jókst um 42,5 milljarða það ár. Það samsvarar 28% af landsframleiðslu Íslands fyrir árið 2013. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabanka Íslands fyrir árið 2014.

„Helstu breytingar sem minnkuðu forða á tímabilinu má rekja til fyrirframgreiðslu á Norðurlandalánum sem nam um 114 ma.kr., fyrirframgreiðslu AGS-láns sem nam um 51 ma.kr. og greiðslu 200 milljóna Bandaríkjadala vegna láns ríkissjóðs sem nam um 22 ma.kr. Helstu breytingar til aukningar á forða á tímabilinu voru skuldabréfaútgáfa ríkisins í evrum sem nam 116 ma.kr. og gjaldeyriskaup á millibankamarkaði sem juku forðann um 111 ma.kr," segir í ársskýrslu Seðlabankans um þetta atriði

Gjaldeyrisforðanum er ætlað að draga úr áhrifum af ytri áhættu tengdri breytingum á aðgangi að erlendu lánsfé og sveiflum í fjármagnsstreymi til og frá landinu. Þá er talið þýðingarmikið að gjaldeyrisforði sé ríflegur við afnám fjármagnshafta til að styðja við traust á hagkerfinu þegar þar að kemur.