Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands skrapp saman um tæplega 20 prósent í júní. Í mánuðinum minnkaði hann úr rúmlega 1.060 milljörðum króna í rúmlega 850 milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Visir.is í morgun.

Helsta ástæðan fyrir minni stærð gjaldeyrisforðans er fyrirframgreiðsla á lánum Íslands frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hinum Norðurlöndunum upp á rúmlega 170 milljarða. Þá greiddi Lýsing einnig um 35 milljarða til Deutsche Bank í júní.

Á blaðamannafundi í maí vegna vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri að forðinn þyrfti að vera hvað mestur þegar höftin yrðu afnumin í lok árs 2013. Seðlabankastjóri taldi þá ekki tilefni til að minnka forðann til að lækka kostnað við forðahaldið. Hér virðist því um ákveðna stefnubreytingu að ræða ef forðinn verður ekki aukinn á ný áður en afnema á höftin.