„Miðað við vænt útstreymi gjaldeyris og ætli seðlabankinn að halda gengi krónunnar á svipuðu róli - án endurfjármögnunar -  þá tæmist forðinn á þremur árum," sagði Þorbjörn Atli Sveinsson sérfræðingur Greiningardeildar Arion banka á morgunverðarfundi í morgun. Þar voru ræddar efnahagshorfur í höftum og meðal annars stöðu gjaldeyrisforðans.

Greiningardeild Arion banka hefur undanfarið greint raunverulegt greiðsluflæði á gjaldeyri til og frá landsins. Þorbjörn Atli benti á að meginuppistaða gjaldeyrisforðans væru innlán þrotabú bankanna og innlánsstofnana. Þau næmu um 300 milljörðum króna. Sjálfur gjaldeyrisvarasjóðurinn, samkvæmt skilgreiningu greiningadeildarinnar, næmi um 740 milljörðum króna. Á næsta ári væru til dæmis 200 milljarðar á gjalddaga.

Endurfjármögnun ekki í augsýn

Í samantekt á erindi Þorbjörns Atla má því segja að útlit sé fyrir að endurgreiðslur af erlendum lánum verði þungar á næstu árum og enn sem komið er endurfjármögnun ekki í augýn. Ef sú staða breytist ekki fljótt muni safnast upp mikil uppsöfnuð þörf eftir gjaldeyri frá og með árinu 2013.

„Þessari þörf verður að öðru óbreyttu ekki mætt með öðru en forða Seðlabankans eða veikingu krónunnar. Hinsvegar er vandinn sá að forði Seðlabankans er allur skuldsettur og stærsti hluti hans er til skamms tíma. Svigrúm Seðlabankans til að gjaldeyriskaupa (forðasöfnunar) í framtíðinni er því að öllum líkindum afar takmarkað án veikari krónu. Veiking krónunnar blasir við án betri aðgangs að erlendum lánsfjármörkuðum en þó má taka það fram að Seðlabankinn hefur tök á gengi krónunnar til 2013," segir í samantekt frá bankanum sjálfum.

Myndin dökknar 2014

Þorbjörn Atli benti á í erindi sínu að myndin af endurgreiðslum lána í gjaldeyri dökkni mjög á árinu 2014. Þá hefjist greiðslur á skuldabréfi milli nýja og gamla Landsbankans. Mikilvægt sé að átta sig á því atriði með tilliti til gjaldeyrissköpunar á næstu árum.

„Gjaldeyrissköpun dugar engan veginn miðað við núverandi gengi fyrir erlendum lánum. En við getum auðveldlega handstýrt krónunni, haldið henni óbreyttri, til 2013. Það er meðal sá útgangspunktur sem við höfum í okkar mati," sagði Þorbjörn Atli.