Gjaldeyrisforði Kína stækkaði um 130,59 milljarða Bandaríkjadala á öðrum fjórðungi ársins og var metinn á 1,33 billjónir dala í lok júnímánaðar. Þessi aukning endurspeglar það gríðarlega mikla fjármagn sem flæðir inn í landið um þessar mundir, en síðastliðin þrjú ár hefur gjaldeyrisforði Kína stækkað um fimmtán til tuttugu milljarða dala í hverjum mánuði.

Þar sem útflutningur Kínverja er mun meiri heldur en innflutningur, auk þess sem fjárfestingar Kínverja á erlendri grundu eru minni heldur en fjárfestingar erlendra aðila í Kína, þýðir það að erlendur gjaldeyrir safnast upp í landinu. Kínversk yfirvöld greindu einnig frá því í gær að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi hefði aukist um 11,1%, en stjórnvöld höfðu áður gert ráð fyrir 10,6% vexti.