Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 490,1 milljarði króna í lok desember og hækkaði um 87,3 milljarða milli mánaða.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans sem segir hækkunina stafa að mestu af láni frá Norðurlöndunum sem er veitt í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Erlend verðbréf hækkuðu um 1,7 milljarð króna í desember og seðlar og innstæður hækkuðu um 85,5 milljarða króna.

Á sama tíma námu erlendar eignir Seðlabanka Íslands 490 milljörðum króna, samanborið við 403 milljarða króna í lok nóvember 2009.

Þá voru erlendar skuldir Seðlabankans 182 milljarðar króna í lok desember en voru 185 milljarða r króna í lok nóvember 2009.

Í Hagtölum bankans kemur fram að þann 21. desember sl. var fyrsti hluti láns frá Norðurlöndunum greiddur til Íslands í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um var að ræða 300 milljónir evra og þar af tók Seðlabanki Íslands 81 milljón evra að láni eða um 14,5 milljarða króna hjá norska seðlabankanum.