Ekkert er í spilunum sem bendir til þess að gjaldeyrishöftin verði afnumin að fullu fyrir 30. nóvember 2010, segir Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabanka Íslands. Lögin um gjaldeyrishöft voru sett til 30. nóvember 2010.

„Í mínum huga er ekki útilokað að við þurfum að vera með höftin lengur en það," segir hann enn fremur.

Þó kæmi til greina, segir hann, að afnema þau í áföngum fyrir þann tíma. „Forsendur þess að gjaldeyrishöftunum verði létt er að það takist að vinna á krónustöðu erlendra aðila. Það gengur ekki eins hratt og menn bjuggust við."

Hann segir að gjaldeyrishöftin séu meðal þess sem sé til skoðunar við fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Seðlabankinn komi einnig að þeirri vinnu.

Lögin um gjaldeyrishöft voru samþykkt með hraði á Alþingi í lok nóvember 2008. Tilgangur þeirra var að koma í veg fyrir of mikið gjaldeyrisflæði úr landi sem myndi leiða til mikillar lækkunar á gengi krónunnar.

Lögin voru hert í lok mars og nú liggur fyrir Alþingi þriðja frumvarpið sem m.a. er ætlað að herða viðurlög við brot á lögunum. Samkvæmt frumvarpinu er heimilt að beita sektum eða fangelsi sé brotið á áttundu grein laganna um milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og verslun með erlendan gjaldeyri.