Tölvuleikjafyrirtækið CCP nýtur ekki almennrar undanþágu frá gjaldeyrishöftum að sögn Hilmars Veigars Péturssonar, forstjóra CCP og gerir það rekstur félagsins erfiðari en ella. Í samtali við Markaðinn í dag segir hann ekki nægilega stóran hluta starfsemi félagsins erlendis þótt nær allar tekjur þess komi erlendis frá og 60% kostnaðar sé erlendis. Samkvæmt lögum þarf 80% starfsemi félags að vera á erlendri grundu til þess að það fái almenna undanþágu frá gjaldeyrishöftum og segir Hilmar Veigar að ætla CCP að fá almenna undanþágu verði félagið að flytja stærri hluta starfsemi sinnar út fyrir landssteinanna..

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga hafa tollverðir gert upptækan gjaldeyri umfram 350 þúsund krónur hjá fólki sem er á leið úr landi en samkvæmt reglum um gjaldeyrishöft er óheimilt að flytja meiri gjaldeyri en svo úr landi á einum mánuði. Hilmar Veigar segir að erlendir starfsmenn CCP hafi orðið fyrir barðinu á þessari reglugerð þegar þeir hyggist taka launin sín með sér úr landi og segir hann suma þeirra lenda í vandræðum með að greiða af námslánum eða húsnæði.

Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að um 5-7 tilvik hafi komið upp síðan í apríl 2010 þegar reglur um útflutning gjaldeyris voru hertar. Hann segir að ekki sé leitað skipulega á fólki að gjaldeyri.