„Að sjálfsögðu leitum við reyndra aðila sem sýnt hafa árangur en fyrir okk­ur er oft mikilvægt að sækja nýja krafta erlendis frá. Ástæður þess eru í fyrsta lagi smæð okkar mark­aðar,“ segir Þórður Magnússon, fjárfestir og stjórnarformaður Eyris Invest. Þórður hætti sem stjórnarformaður Marorku um áramótin þegar Jón Ágúst Þorsteinsson hætti sem forstjóri Marorku og settist í stól Þórðar. Leit stendur nú yfir að eftirmanni Jóns í forstjórastól Marorku.

„Marorka er með tilbúna við­urkennda staðlaða vöru sem þarf að koma út um allan heim sem fyrst. Litið er til þess að nýr aðili geti eflt sölu­ og markaðsstarfsemina erlendis og áform eru um að opna markaðsskrifstofur í Sjanghæ og Evrópu. Marorka er leiðandi á sínu sviði og hefur mikla möguleika á heimsvísu,“ segir hann og bætir við að sökum þessa verði að beina sjónum til fleiri landa en Íslands í leitinni að nýjum forstjóra.

„Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að á okkar litla landi sé að finna alla þá þekkingu og hæfileika sem við sækjumst eftir í stjórnendateymi fyrirtækis. Við erum einfaldlega of fá. Þá megum við ekki vera heimóttarleg heldur eigum við að vera óhrædd við að sækja nýja öfluga aðila erlendis frá. Auk þess getur það styrkt fyrirtæk­ in að fá inn aðila sem er nær stærri mörkuðum og með tengsl sem nýtast fyrirtækinu,“ segir Þórður en hann segir að eftir hrun hafi um­ hverfið breyst verulega til hins verra hér á landi þegar kemur að því að bjóða erlendum aðilum störf fyrir íslensk fyrirtæki.

„Þá komum við að því að þessi umgjörð sem erlendu aðilunum stendur til boða er alveg hrikaleg á Íslandi. Fyrir höft var þetta spurning um hvort börnin kæmust í skóla og hvort launin væru samkeppnis­hæf. Nú er spurningin, fyrir utan þessa fyrrnefndu hluti, hvort þeir lokist hér inni, þ.e. ef þeir kaupa húsnæði, hvort þeir geta tekið pen­ingana út aftur eða eru þeir fastir með þá hér,“ segir hann og veltir upp þeirri spurningu hvað erlendir aðilar eiga að gera með kauprétti í hlutabréfum skráðum á Íslandi í íslenskum krónum. Erfitt geti reynst að fara út með þá fjármuni þegar þeir láta af störfum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.