Kýpverjar mega taka út 300 evrur, jafnvirði tæpra 48 þúsund króna, að hámarki út af bankareikningum sínum á hverjum degi samkvæmt þeim gjaldeyrishöftum sem búið er að innleiða í landinu. Bankar á Kýpur hafa verið lokaðir í hálfan mánuð og voru þeir ekki opnaðir aftur fyrr en í dag, en með talsvert meiri hömlum á fjármagnsúttektum en áður. Hlutabréfamarkaðurinn á Kýpur er hins vegar enn lokaður.

Breska dagblaðið Financial Times segir á vef sínum að stjórnvöld á Kýpur hafi verið viðbúin því að landsmenn myndu tæma bankareikninga sína og því hafi verið talið nauðsynlegt að setja höft á úttektir. Þá gættu 180 öryggisverðir þess að landsmenn héldu aftur af sér í bönkum landsins.

Samkvæmt höftunum mega m.a. fyrirtæki á Kýpur aðeins taka út 5.000 evrur á dag og mega ferðamenn hafa þúsund evrur með sér þegar þeir fara af landi brott.