Heildsali sem verslar reglulega tæki frá útlöndum var nærri búinn að leggja 5-10 milljónir króna á reikning tölvuþrjóta sem blekktu hann. Morgunblaðið greinir frá þessu en atvik málsins voru þau að tölvuþrjótar komust inn í samskipti mannsins við birgja í Bretlandi. Bjuggu þeir til annað tölvupóstfang sem líktist því sem birginn var með og báðu heildsalann um að millifæra á annan reikning.

Millifærslan var langt komin en tafðist hins vegar þar sem hún þurfti að fara í gegnum ferli Seðlabankans til þess að fá samþykki fyrir nýjum gjaldeyrisreikningi. Fór tölvuþrjóturinn þá að ókyrrast og breytti viðmóti sínu í tölvupóstssamskiptum við heildsalann og vakti það grunsemdir hjá honum. Heildsalinn var í áfalli þegar upp komst um málið.