Með dómi uppkveðnum fyrr í dag hefur EFTA-dómstóllinn staðfest að gjaldeyrishöft, líkt og þau sem gilda hér á landi, samræmast EES-samningnum. Í dóminum kemur fram að samkvæmt 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins geti hvort tveggja aðildarríki ESB og EFTA-ríki gripið til verndarráðstafana ef þau eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að slíkir örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Við meðferð málsins benti íslenska ríkið og Seðlabanki Íslands á að nauðsynlegt hafi verið að taka upp gjaldeyrishöft hér á landi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í þessu sambandi var bent á að Ísland hafi óskað eftir láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lánið hafi verið veitt í því skyni að ná mætti jafnvægi i greiðslujöfnuði landsins. Gjaldeyrishöftin sem var komið á í árslok 2008 hafi ekki reynst nægjanleg til að auka gjaldeyrisforðann og því hafi verið nauðsynlegt að takmarka innstreymi á svonefndum aflandskrónum til landsins. Fyrr á þessu ári, óskaði Héraðsdómur Reykjavíkur eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins hvort takmarkanir af þessum toga samræmdust EES-samningnum.

Í dómi EFTA-dómstólsins segir m.a. samkvæmt tilkynningu: Hin efnislegu skilyrði sem kveðið er á um í 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins útheimta flókið mat á ýmsum þjóðhagfræðilegum þáttum. EFTA-ríki njóta því aukins svigrúms til að meta hvort skilyrðin teljist uppfyllt og ákveða til hvaða úrræða skuli gripið, þar sem slík ákvörðun snýst í mörgum tilvikum um grundvallaratriði við mörkun efnahagsstefnu. Verndarráðstafanirnar sem deilt er um í þessu máli, þ.e. reglurnar sem takmarka innflutning á aflandskrónum, voru settar til að hindra fjármagnsflutninga sem gætu valdið alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Atvik málsins, sem vísað hefur verið til fyrir dómstólnum, gefa til kynna að alvarlegar aðstæður hafi skapast á Íslandi eftir hrun fjármálakerfisins síðla árs 2008. Þessar aðstæður lýstu sér meðal annars í verulegri gengislækkun íslensku krónunnar og minnkandi gjaldeyrisforða. Við þessar aðstæður voru uppfyllt efnislegu skilyrðin fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins, jafnt á þeim tímapunkti þegar reglurnar voru settar (í október 2009) sem og þegar stefnanda var endanlega meinuð undanþága frá gildandi banni við innflutningi aflandskróna (í október 2010).