Í síðustu viku var greint frá því að komið væri fram tilboð í allt hlutafé plastframleiðandans Promens, sem felur það í sér að hlutafé félagsins er metið á 36,5 milljarða króna en að heildarvirði félagsins sé um 61,6 milljarðar. Yrði gengið að tilboðinu yrði virði hlutafjárins allt greitt út í reiðufé og eigendur fengju því í sinn hlut um 236 milljónir evra. Eigendur Promens eru FSÍ og Landsbankinn, sem sameiginlega eiga tæplega 99% hlutafjár.

Lengi var talað um það sem möguleika að skrá Promens á markað, annaðhvort hér heima eða erlendis eða jafnvel að hlutir félagsins yrðu skráðir í tveimur kauphöllum. Ljóst er að af þessu verður ekki ef RPC Group tekur Promens yfir og sameinar sínum rekstri.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má rekja söluna á Promens til tveggja þátta. Annars vegar var Landsbankinn undir miklum þrýstingi af hálfu Fjármálaeftirlitsins um að selja hlut sinn í félaginu, enda er eign banka í fyrirtækjum í óskyldum rekstri takmörk sett. Var því aðeins um tímaspursmál að ræða hvenær Landsbankinn myndi selja sinn hluta.

Hinn áhrifaþátturinn snýr að framtíðaráformum Promens. Fyrirtækið hafði náð svokölluðum stórbirgjasamningi við mjög stórt erlent fyrirtæki sem fól í sér að Promens hefði þurft að fjárfesta mjög mikið í verksmiðjum erlendis. Á móti kemur að miðað við áætlanir fyrirtækisins hefði velta þess á nokkrum árum farið úr tæpum 600 milljónum evra í að nálgast milljarð evra. Til að fjármagna þessa uppbyggingu voru íslenskar krónur til lítils nothæfar og því nauðsynlegt að afla erlends gjaldeyris.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .