Meirihluti þingmanna telur að ríkisstjórninni muni takast að aflétta gjaldeyrishöftum áður en kjörtímabilið tekur enda eftir tvö ár. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem Bloomberg framkvæmdi meðal alþingismanna.

Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að allir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, fyrir utan þrjá, telji að gjaldeyrishöftunum verði aflétt fyrir árið 2017. Hins vegar skal tekið fram að ráðherrar voru útilokaðir frá könnuninni og því ekki spurðir.

Ekki ríkir þó jafnmikil bjartsýni meðal stjórnarandstöðuþingmanna, en af 25 þingmönnum töldu 16 að ríkisstjórninni tækist ekki að aflétta gjaldeyrishöftum fyrir lok kjörtímabilsins. Hins vegar voru tveir sammála meirihlutanum, en sjö töldu að skref yrðu stigin í átt að afnámi án þess að það tækist til fulls.