*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Erlent 6. apríl 2015 13:56

Gjaldeyrishöftum aflétt á Kýpur

Slakað var á gjaldeyrishöftum á Kýpur í janúar, en þeim verður aflétt að öllu leyti nú.

Ritstjórn

Gjaldeyrshöft sem sett voru á á Kýpur árið 2013 munu nú heyra sögunni til og segir forseti landsins, Nicos Anastasiades, að um aflétting hafta sé traustsyfirlýsing á bankakerfi landsins. BBC greinir frá.

Þrátt fyrir að önnur evruríki hafi lent í alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum í evrukreppunni svokölluðu var Kýpur það eina þeirra sem setti á gjaldeyrishöft af einhverju tagi.

Til að mynda máttu einstaklingar ekki flytja meira en 20.000 evrur í erlenda banka á mánuði eða taka með sér meira en 10.000 evrur í gjaldeyri þegar þeir fóru erlendis.

Í mars 2013 fékk Kýpur 10 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir að bankakerfi landsins rambaði á barmi gjaldþrots. Ástæðan var sú að bankarnir höfðu fjárfest mikið í Grikklandi og töpuðu háum fjárhæðum þegar kreppa hófst þar í landi.