Svo virðist sem fyrirtæki, sem hafa einhverjar tekjur í erlendri mynt, hafi haldið eftir hluta af sínum gjaldeyristekjum á gjaldeyrisreikningum hjá innlánsstofnunum og ekki skipt þeim yfir í krónur. Það skýrir að hluta af hverju talsverður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd hefur ekki náð að styrkja gengi krónunnar í sumar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en innstæður fyrirtækja á gjaldeyrisreikningum og í gengisbundnum veltiinnlánum hjá innlánsstofnunum jukust samanlagt um 44 milljarða króna frá lokum mars til júníloka, reiknað á föstu gengi.

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Seðlabankans námu innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum ríflega 154 milljörðum króna í lok júlí síðastliðins. Þar af áttu heimili tæpa 35 milljarða króna en fyrirtæki rúmlega 119 milljarða.

„Þessi þróun á sér tiltekna samsvörun í þróun gengis krónu á sama tímabili,“ segir í Morgunkorni.

„Krónan styrktist myndarlega frá áramótum og fram í miðjan mars, en veiktist í kjölfarið nánast samfleytt fram í miðjan júní. Verulegt útflæði vaxtagjalda til útlendinga á vordögum er raunar einn veigamesti orsakavaldur veikingarkrónu á tímabilinu að mati okkar.“

Þá segir Greining Íslandsbanka að þróun gjaldeyrisinnstæðna fyrirtækja á sama tíma kunni þó að vera til marks um þverrandi trú á þeim hluta áætlunar AGS og stjórnvalda sem sneri að stöðugleika, og eftir atvikum styrkingu, í krónunni og hafi þá um leið spilað hlutverk í veikingu hennar.

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.