Gengi krónunnar hefur lækkað um 1,8% frá áramótum. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að ekki sé hægt að svara því með óyggjandi hætti hvað hafi valdið lækkun undanfarið.

„Nokkrir þættir koma hins vegar til greina. Kaup Seðlabankans á gjaldeyri er einn þáttur en bankinn hefur með kaupum sínum undanfarið verið að styrkja þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni og í leiðinni tekið nokkuð af því takmarkaða framboði sem hefur verið af gjaldeyri. Á síðasta ári keypti bankinn gjaldeyri fyrir tæplega 30 ma.kr. Af því voru 27,4 ma.kr. í desember og í tengslum við leiðréttingu á gjaldeyrisójöfnuði viðskiptabankanna.  Hlutdeild bankans af veltunni á millibankamarkaðinum með gjaldeyri var 82% á fimm síðustu mánuðum síðastliðins árs eða frá því að bankinn hóf regluleg kaup á gjaldeyri í ágúst.“

Þá segir að væntingar um að afnám hafta sé á næsta leiti kunni að vera önnur skýring. Væntanleg áætlun Seðlabankans, AGS og stjórnvalda um afnám hafta er boðuð fyrir lok febrúar. Tímasett áætlun á síðan að liggja fyrir áður en efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda rennur sitt skeið í ágúst næstkomandi.

Evran kostar nú 153,8 krónur en kostaði í upphafi árs 156,6 krónur. Breytingin hefur verið minni gagnvart dollar sem kostaði 115,1 krónu um áramót en nú um 116,8 krónur.

Afgangur af vöruskiptum

„Afgangur hefur verið talsverður af vöruskiptum við útlönd undanfarna mánuði og hefur það stutt við krónuna. Í desember var afgangurinn 11,5 ma.kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar eftir 10,4 ma.kr. afgang í nóvember. Einungis lítill hluti af gjaldeyrisflæði vegna vöruskipta skilar sér hins vegar inn á millibankamarkaðinn með gjaldeyri. Þannig voru fluttar út vörur í fyrra fyrir 558 ma.kr. og inn fyrir 414 ma.kr. en veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyrir var einungis 45 ma.kr. Má vera að nú þegar ofangreindar væntingar um afnám hafta draga úr innflæðinu á sama tíma og Seðlabankinn er með inngripum sínum að þurrka upp það litla sem er leiði samspil þessara þátta til veikingar krónu.

Reikna hefði mátt með því að í því takmarkaða gjaldeyrisflæði sem er heimilt undir núverandi gjaldeyrishöftum yrði nokkur árstíðarbundin sveifla í gengi krónunnar. Þannig er innflæði gjaldeyris vegna verðamannaþjónustu langmest á þriðja ársfjórðungi en hins vegar afar lítið á fyrsta ársfjórðungi. Var þjónustujöfnuðurinn þannig jákvæður á þriðja ársfjórðungi í fyrra um 35,3 ma.kr. en neikvæður á fyrsta ársfjórðungi um 0,3 ma.kr. Má vera að þessi veiking krónunnar nú tengist þessu árstíðarbundna flæði að einhverju marki.

Þrátt fyrir lækkun krónunnar nú hefur gengið vel að halda gengi krónunnar stöðugu og styrkja það innan þess stranga ramma sem gjaldeyrishöftin hafa verið fyrir gjaldeyrisviðskipti alveg frá hruninu 2008. Ástandið á gjaldeyrismarkaði er hins vegar viðkvæmt og þannig ekki á vísan að róa með stöðugleika krónunnar litið fram á við.“