Hrein uppsöfnuð gjaldeyriskaup Seðlabankans á innlendum gjaldeyrismarkaði námu 114 milljónum evra, 16 milljörðum króna, milli funda peningastefnunefndar. Síðasti fundur nefndarinnar var þann 9. desember, og fyrir það þann 4. nóvember, en í gær var birt fundargerð frá fundinum þann 9. desember. Kaup Seðlabankans nema 48% af veltu á gjaldeyrismarkaði.

Það sem af er ári nema kaup bankans 1,6 milljarði evra, eða 236 milljörðum króna, en það er meira en tvöföld kaup bankans á sama tímabili ársins 2014.

Svipað taumhald

Bankinn segir að taumhald peningastefnunnar í byrjun desember sé svipað og það mældist fyrir fundinn í nóvember. Raunvextir bankans voru 3,7% miðað við ársverðbólgu og 2,4% miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingum.

Ákvörðunin kom á óvart

Nefndin segir einnig að svo virðist sem ákvörðun peningastefnunefndarinnar um að hækka meginvexti (stýrivexti) um 0.25 prósentur í nóvember virðist hafa komið markaðsaðilum á skuldabréfamarkaði á óvart, enda höfðu flestir greiningaraðilar spáð óbreyttum vöxtum.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisog íbúðabréfa hækkaði í kjölfarið og hafði hækkað um 0,3-1,1 prósentu um miðjan nóvember, mest á lengri óverðtryggða endanum. Krafa óverðtryggðra bréfa tók síðan að lækka á ný. Á desemberfundi nefndarinnar var ávöxtunarkrafa óverðtryggðra og verðtryggðra ríkis- og íbúðabréfa um 0,3-0,7 prósentum hærri en hún hafði verið á nóvemberfundinum.

Vextir óverðtryggðra íbúðalána tveggja af stóru viðskiptabönkunum hækkuðu einnig samhliða hækkun vaxta Seðlabankans í nóvember en vextir verðtryggðra íbúðalána stóru viðskiptabankanna og meðaltal verðtryggðra vaxta íbúðalána lífeyrissjóða breyttust ekki.

Vextir óverðtryggðra innlána stóru viðskiptabankanna hækkuðu einnig samhliða hækkun vaxta Seðlabankans í nóvember en vextir verðtryggðra innlána voru óbreyttir frá nóvemberfundinum. Litlar breytingar hafa orðið á áhættuálagi á skuldbindingar ríkissjóðs frá fundi nefndarinnar í nóvember.