Að sögn Hilmars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra tölvufyrirtækisins Caoz, ríkir óvissa um það hvernig nýju verki þeirra muni vinda fram í kjölfar nýrra gjaldeyrislaga. Félagið hefur haft lengi í undirbúningi að gera teiknimynd um þrumuguðinn Þór eða Thór upp á ensku. Áformað var að frumsýna myndina í árslok 2010 og er hún núna í forvinnslu. Áætlað er að myndin kosti átta milljónir evra.   Ef verkið fer í framkvæmd hefði það í för með sér mikla aukningu á starfsemi Caoz. Að sögn Hilmars var fjármögnun komin á lokastig en um er að ræða samframleiðslu þeirra og þýskra og írskra aðila. ,,Við höfðum séð fyrir okkur að Þór sem næsta stóra verkefnið hjá okkur. Við trúum ekki öðru en að þetta leysist með ásættanlegum hætti fyrir okkur.”