Þeir sem bjartsýnni eru á horfurnar á fjármálamörkuðum telja að björgun bandaríska seðlabankans á fjárfestingabankanum Bear Stearns í marsmánuði hafi markað ákveðin þáttaskil: Komið hafi verið í veg fyrir að svartsýnustu dómsdagsspár rættust og væntingar um að hið versta sé yfirstaðið hafa í kjölfarið aukist.

Frá þeim tíma hefur ótti fjárfesta verið í rénun eins og sjá má þegar horft er til þróunarinnar á VIX-vísitölunni, sem þykir góður mælikvarði á áhættufælni á bandarískum hlutabréfamarkaði.

Bandaríkjadalur hefur heldur ekki farið varhluta af þessari vaxandi bjartsýni fjárfesta. Gengi dalsins gagnvart jeninu hefur hækkað um 6% á undanförnum tveimur mánuðum.

Sömu sögu er að segja af gjaldmiðlum ýmissa nýmarkaðsríkja: Gengi suðurafríska randsins hefur náð ákveðnum stöðugleika gagnvart dalnum, eftir að hafa hríðfallið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. En svartsýnismenn á fjármálamörkuðum álíta aftur á móti enn of snemmt að hefja lúðrablásturinn.

Þrátt fyrir að slæmum fregnum af bandaríska hagkerfinu hafi fækkað og hagvöxtur mælst öflugri á evrusvæðinu en búist hafi verið við, fer því víðs fjarri að hægt sé að tala um „eðlilegt ástand“ á fjármálamörkuðum.

Fjárfestar eru enn mjög viðkvæmir fyrir öllum neikvæðum fréttum sem berast frá bandarískum fjármálamörkuðum. Það mun líklega ekkert breytast á næstu mánuðum – sérstaklega ef verðbólga heldur áfram að aukast í stærstu hagkerfum heimsins.