Þýski risabankinn Deutsche Bank hefur sett nokkra gjaldeyrismiðlara í útibúi bankans í New York og víðar í vesturheimi á hliðarlínuna. Viðskipti þeirra eru undir kastljósinu í innri rannsókn bankans á því hvort þeir hafi ásamt fleirum brotið af sér. Gjaldeyrismiðlarar hjá öðrum bönkum eru sömuleiðis til rannsóknar. Þeir starfs hjá Citigroup, JP Morgan, Royal Bank of Scotland og Barclays. Miðlarar bankanna eru samtals 13 og hafa þeir sem grunaðir eru um að hafa aðhafst eitthvað misjafnt á gjaldeyrismarkaði verið sendir í frí.

Breska dagblaðið Financial Times hefur upp úr þýska blaðinu Die Welt að forsvarsmenn bankans hafi gengist við því að þeir vinni með eftirlitsaðilum í nokkrum löndum að alþjóðlegri rannsókn á hugsanlegum brotum á gjaldeyrismarkaði.