Gjaldeyrisójöfnuður nýju bankanna verður ekki að fullu leystur fyrir endanlegt uppgjör bankanna 17. júlí, að sögn Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, segir að áætlun um lausn málsins þurfi þó að liggja fyrir áður en gengið verður frá uppgjörinu. Að hluta til felist lausnin í því að breyta skuldum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur. Það muni þó taka tíma.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að verið sé að skoða ýmsar leiðir til að leysa gjaldeyrisójöfnuðinn. „Við leggjum áherslu á að ljúka við gerð efnahagsreikningsins. Við þurfum hins vegar að vera með þennan ójöfnuð áfram en erum að skoða ýmsar leiðir til að leysa það mál," segir hún. „Það verður vel hægt að ganga frá uppgjörinu [milli bankanna] þó svo þetta mál standi út af borðinu."

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans, gaf Viðskiptablaðinu ekki kost á viðtali við vinnslu þessarar greinar.

Gjaldeyrisójöfnuður þýðir að gjaldmiðlasamsetning eigna og skulda sé ójöfn. Nýju bankarnir eru til dæmis með meirihluta skulda í krónum en meirihluta eigna í erlendri mynt. Þetta þýðir að ef krónan styrkist þá minnka eignirnar en skuldirnar vaxa.

Nánar er fjallað um uppgjör bankanna í Viðskiptablaðinu.