Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, tilkynnti í utanríkisráðuneytinu í morgun að gerður hefði verið gjaldeyrisskiptasamningur við Seðlabanka Kína að upphæð sem jafgildir 66 milljörðum íslenskra króna eða 3,5 milljörðum kínverskra júan. Samningurinn er til þriggja ára og hægt er að endurnýja hann. Már sagði að þessi samningur væri fyrst og fremst hugsaður til að greiða fyrir utanríkisviðskiptum milli landanna. Þannig munu Íslendingar geta átt viðskipti við Kína með krónur og Kínverjar við Íslendinga í júan. Þannig munu þau viðskipti ekki hafa áhrif á gjaldeyrisforða Seðlabankans.

"Þetta skapar möguleika á að hægt verði að fjármagna utanríkisviðskipti milli landanna án þess að nota skiptanlegar myntir í gjaldeyrisvaraforða, til dæmis evrur eða dollara," sagði Már á fundi með blaðamönnum eftir undirritun samningsins.