Gjaldeyrisstaða bankanna var jákvæð um tæpa 83 milljarða króna í lok febrúar sem er um 21,7 milljarða króna hækkun milli mánaða, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Sem hluta af áhættustýringaraðgerðum má því gera ráð fyrir að bankarnir eða hluti þeirra hafi ákveðið að reka jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð til að verjast neikvæðum áhrifum af veikingu krónunnar á eiginfjárstöðu þeirra.

Gjaldeyrisjöfnuður er samtala þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er jákvæð frádreginni samtölu þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er neikvæð.

Á síðustu misserum hefur jákvæð gjaldeyrisstaða bankanna vaxið umtalsvert en í lok október var gjaldeyrisjöfnuðurinn jákvæður um rúma 2 milljarða og hefur jákvæð staða hans því hækkað um alls 81 milljarða á síðastliðnum 4 mánuðum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð bankanna, sem ætlað er að lágmarka gjaldeyrisáhættu þeirra, eru á þann veg að jöfnuður sérhvers banka má ekki vera jákvæður né neikvæður um meira en 30% af eiginfjárhlutfalli bankans.

Ákveðnar undanþágureglur gera bönkunum þó kleift að verja eiginfjárhlutföll gegn óhægstæðum gengisáhrifum.

Við lok árs 2005 var eigið fé bankanna um 390 milljarðar króna sem þýðir að þeir hafi til samans mátt reka jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð upp á 117 milljarða króna.

Það er því ljóst að bankarnir eða hluti þeirra eru mjög nálægt þessu 30% hlutfalli núna og má því velta fyrir sér hvort einhver bankanna sé að nýta sér þau undanþáguákvæði sem eru á reglum Seðlabankans.

Þetta er heldur ekki ólíklegt í ljósi þess að raungengi krónunnar hefur verið mjög sterkt síðastliðna mánuði sem hefur aukið hættu á veikingu hennar.