Mismunur gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og lána Seðlabankans í erlendri mynt er nú jákvæður um 112 milljarða króna. Hefur hann því meira en tvöfaldast frá áramótum, en í desember síðastliðnum nam hann 47 milljörðum króna. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Þar kemur fram að metfjöldi erlendra ferðamanna eigi þátt í aukningu gjaldeyrisforðans þar sem þeir skilji gjaldeyri eftir sem endi hjá bönkunum og Seðlabankinn kaupi gjaldeyrinn af þeim á millibankamarkaði.

Magnús Stefánsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir í samtali við Morgunblaðið að góð staða forðans ætti að hjálpa til við losun hafta. Það verði að teljast ólíklegt að Seðlabankinn selji úr forðanum nema til að jafna út skammtímasveiflur.