Nettóstaða viðskiptabankanna í erlendum gjaldeyri jókst um rúmlega 80 milljarða króna í desember og var 188,5 milljarða króna í árslok, segir greiningardeild Glitnis.

"Það jafngildir tæplega 23% af eigin fé bankanna og hefur það hlutfall ekki áður verið jafn hátt. Stór hluti þessarar aukningar (ríflega 50 milljarðar króna) virðist hafa átt sér stað á örfáum dögum á fyrstu vikum mánaðarins og kann að tengjast hlutafjárútboði Kaupþings erlendis sem lauk undir lok nóvembermánaðar.

Í öllu falli er ólíklegt að þessari upphæð hafi fylgt samsvarandi gjaldeyrisviðskipti á markaði því líklegt er að krónan hefði gefið nokkuð eftir ef sú væri raunin. Nettóstaðan í erlendum gjaldeyri hækkaði síðan jafnt og þétt út mánuðinn,? segir greiningardeildin.

Nettóstaða hvers banka má ekki fara yfir 30%, samkvæmt reglum Seðlabankans, nema til þess að verja eiginfjárhlutfall. ?Líklegt er að slík undanþága hafi verið veitt einhverjum bankanna þriggja og má telja líklegast að það sé Kaupþing,? segir greiningardeildin.