Á síðasta ári voru gjaldeyristekjur þjóðarinnar af þjónustustarfsemi 36,6% af heildargjaldeyristekjunum og hækkuðu um 8% á milli ára. Þar með eru þjónustugreinarnar farnar að nálgast það hlutfall gjaldeyristekna sem sjávarútvegur aflar, en það var 39,5% á síðasta ári. Hlutfall þjónustugreinanna hefur farið hækkandi síðustu ár. Árið 2002 var hlutfallið 33,9%. "Óhætt er að fara að skrifa kennslubækurnar upp á nýtt og draga fram þá staðreynd að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er þjónustustarfsemi!," segir í fréttabréfi SVÞ.

Upplýsingar um gjaldeyristekjur mismunandi starfsgreina má lesa úr nýrri samantekt Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlönd. Þar kemur fram að stærstur hluti gjaldeyristekna þjónustugreina er vegna samgangna, þar næst kemur liðurinn önnur þjónusta, sem væntanlega er að stærstum hluta fjármálastarfsemi og í þriðja lagi liðurinn ferðalög.

Þegar litið er til þessa vaxandi hlutar gjaldeyristekna vegna þjónustustarfsemi, þeirrar staðreyndar að um 71% starfandi Íslendinga starfa við þjónustu og að fyrirtæki í þessum greinum greiða langmest lögaðila í opinber gjöld er eðlilegt að tala um Ísland sem þjónustuþjóð.