Heildargjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar 2004 voru rúmlega 39 milljarðar og jukust um 5,4% frá árinu 2003. Tekjurnar skiptast þannig að eyðsla erlendra ferðamanna innanlands var 26 milljarðar og fargjaldatekjur 13 milljarðar. Eyðsla innanlands jókst um 6.31% og fargjaldatekjur um 3.77%. Halda má því fram að gjaldeyristekjurnar hefðu verið röskum 2 milljörðum meiri ef gengið hefði haldist óbreytt en miklar sveiflur í gengi eru fyrirtækjunum mjög erfiðar.

Gengiskarfa Seðlabankans hefur lækkað um rösklega 10% síðustu 6 mánuði og ljóst að fyrirtæki sem seldu ferðir til Íslands 2005 á föstu verði fyrir 6 mánuðum síðan eru mörg búin að tapa stórum hluta álagningar sinnar.

Sem dæmi má nefna að á síðasta ársfjórðungi 2004 fjölgaði ferðamönnum um 8.7% á meðan gjaldeyristekjur drógust saman um 4.2% vegna gengishækkunar íslensku krónunnar.

Áframhaldandi hátt og jafnvel hækkandi gengi íslensku krónunnar er því alvarleg ógnun við afkomu fyrirtækjanna.