Gjaldeyrisútboð Seðlabankans duga skammt til þess að minnka snjóhengjuna, þ.e.a.s. stafla aflandskróna. Snjóhengjan nemur enn í námunda við 400 milljarða króna, ef miðað er við krónueignir erlendra aðila í ríkistryggðum skuldabréfum og innstæðum, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar, þar sem fjallað er um gjaldeyrisútboð Seðlabankans, segir m.a. að þau hafi þó skilað þeim árangri að finna skiptiverð á þeim aflandskrónum sem eigendurnir vilja skipta fyrir gjaldeyri sem fyrst. Af því megi ráð aað verulegur hluti aflandskrónustaflans sé þolinmóðari en svo að hann streymi út á gengi sem er í námunda við núverandi aflandsgengi.

Breyta á lokadagsetningu haftaafnáms

Í Morgunkorninu segir jafnframt að :

„Sú þolinmæði gæti þó litast af væntingum um að aflétting hafta geri aflandskrónueigendum kleift að selja krónur sínar á hagstæðara gengi á komandi misserum. Eins og kunnugt er lýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeirri skoðun fyrr í haust að slá þyrfti á slíkar væntingar með því að breyta lokadagsetningu haftalaganna og haga mögulegum útgönguskatti þannig að óhagstæðara verði að selja aflandskrónur eftir því sem tíminn líður. Aflandsgengið er nú á bilinu 225-245 kr., þ.e. á svipuðum slóðum og útboðsgengi Seðlabankans undanfarna mánuði.“