Gajdleyrisútboð Seðlabanka Íslands, þar sem bankinn býðst til að kaupa evrur fyrir krónur til langtímafjárfestingar samkvæmt hinni svokölluðu 50/50 leið, gefur tóninn um hversu mikill áhugi er fyrir þeirri leið næsta kastið. Um leið fást upplýsingar um hversu hratt Seðlabankinn nær að vinna á aflandskrónustabbankum. Þetta segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka þar sem fjallað er um útboðin sem Seðlabankinn tilkynnti um í gær.

Í öðru útboðinu býðst bankinn til þess að kaupa evrur fyrir krónur sem fjárfest verður fyrir í í verðtryggða ríkisbréfaaflokknum RIKS30. Í hinu útboðinu geta kaupendur króna fjárfest til langstíma samkvæmt fjárfestingarleiðinni. Samkvæmt þeirri leið geta fjárfestar sem fjárfesta vilja til langs tíma í íslensku hagkerfi keypt krónur fyrir gjaldeyri í útboðinu fyrir sem svarar helmingi fjárfestingar sinnar, en hinn helmingur krónukaupanna fer í gegnum innlenda banka á skráðu gengi krónunnar. Sett eru skilyrði um 5 ára bindingu fjárfestingarinnar og er takmörkuð við verðbréf, fasteignir og hlutdeildarskírteini í sjóðum.

„Útboð Seðlabankans í tengslum við afléttingu hafta hafa legið niðri frá ágúst síðastliðnum. Hins vegar keypti bankinn ríkisbréf af erlendum aðila fyrir 18,5 ma.kr. í desember síðastliðnum, en skiptigengi í þeim viðskiptum hefur ekki fengist upp gefið. Eftir hina dræmu þátttöku í seinna RIKS30-útboðinu í fyrra og framangreind viðskipti áætlum við að Seðlabankinn þurfi að kaupa til baka sem nemur u.þ.b. 130 m. evra til að bæta sér upp útflæði úr gjaldeyrisforðanum vegna útboða og framangreindra ríkisbréfakaupa. Útboðin í febrúar eru væntanlega ekki síst hugsuð í því skyni, áður en bankinn hefur að nýju útboð þar sem aflandskrónueigendur geta keypt gjaldeyri.“

Greining Íslandsbanka segir að forvitnilegt verði að fylgjast með þátttöku í útboðunum tveimur, sem fara fram 15. febrúar. Ríkisbréfaútboðið geti hugsanlega haft talsverð áhrif á skuldabréfamarkað. „Í ársfjórðungsáætlun Lánamála fyrir 1. ársfjórðung er miðað við að útgáfa ríkisbréfa í útboðum nemi 10-25 mö.kr., en sá fyrirvari er settur að útgáfan, sem og raunar sala ríkisvíxla, muni taka mið af útgáfu RIKS30 í tengslum við útboð Seðlabankans. Ef góð þátttaka verður í útboðinu verður framboð af ríkispappírum í útboðum Lánamála því minna sem því nemur.“