Velta má fyrir sér hvort sú veikingarhrina á gengi krónunnar á síðustu mánuðum eigi að einhverju leyti rætur að rekja til gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands tengt hinni svokölluðu 50/50 leið, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Töluverð lækkun varð á gengi krónunnar í gær og má segja að það sé framhald af þeirri þróun sem var í síðustu viku, þótt gengislækkunin í gær hafi verið meiri en raunin var að jafnaði í vikunni á undan. Þannig lækkaði gengið um 0,6% miðað við gengisvísitölu krónunnar í gærdag, en á vikutímabilinu nemur lækkunin 1,1%.

Segir í Morgunkorninu að það sé nokkuð athyglisvert að þessi veiking skuli eiga sér stað rétt fyrir mánaðarmótin en slíkt hið sama gerðist undir lok febrúar síðastliðins. Út frá þessu megi ætla að gjaldeyrisútstreymi aukist nokkuð undir lok hvers mánaðar, en á þessum árstíma er gengi krónunnar afar viðkvæmt fyrir slíku.

Hvað varðar gjaldeyrisútboð Seðlabankans segir í Morgunkorninu að þótt tilgangur 50/50 leiðarinnar sé að laða að gjaldeyri til innlendrar fjárfestingar myndi hún hvata fyrir eigendur gjaldeyris sem annars myndu selja hann að öllu leyti á innlendum gjaldeyrismarkaði, til að selja helming hans í útboðum Seðlabankans, enda fá þeir fleiri krónur fyrir hverja evru í gjaldeyrisútboðunum. Útboðið á morgun gæti gefið mikilvægar vísbendingar um í hve ríkum mæli þetta er raunin, og eins hvort umtalsverðar fjárhæðir vegna nýrrar fjárfestingar eru að skila sér til landsins þessa dagana.

Ef þátttaka í 50/50 útboðinu verður veruleg en krónan braggast ekki í kjölfarið má draga þá ályktun að stærstur hluti gjaldeyris sem kemur þá leiðina hefði skilað sér hvort eð var, og í framhaldinu hljóta Seðlabankamenn að spyrja sig hvort sú leið sé í raun vænleg til árangurs.