Gjaldeyrisútboð Seðlabankans vegna aflandskróna fer fram í dag, hefst það núna klukkan 10. Frestur til að skila tilboðum rennur út klukkan tvö í dag. Aðgerðin var fyrst boðuð fyrir um ári síðan þegar stjórnvöld kynntu aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta.

Breytingar gerðar á skilmálum

Nokkrar breytingar hafa orðið á fyrirkomulagi útboðsins síðan það var fyrst kynnt, síðast á mánudaginn þegar ákveðið var að falla frá því að hafna öllum tilboðum undir 190 krónum á evru.

Breytingarnar er gerðar svo Seðlabankinn geti aflað sem bestrar vitneskju um hug aflandskrónueigenda til verðlagningar krónunnar. Taflan í 4. grein skilmálanna veitir eftir sem áður tryggingu fyrir ákveðnu útboðsverði ef magnið uppfyllir tiltekin skilyrði.

Með breytingunum er Seðlabankinn að árétta að hann geti ákveðið hagstæðara útboðsverð en taflan tiltekur. Áfram munu allir aflandskrónueigendur fá sama verð fyrir krónurnar.