Velta með gjaldeyri hefur aukist mikið undanfarin ár samfara alþjóðavæðingu íslenskra fjármálamarkaða, að sögn greiningardeildar Glitnis.   Heildarvelta með gjaldeyri á millibankamarkaði á síðasta ári nam samtals 4.967 milljörðum króna og hefur þá meira en fimmfaldast frá síðustu aldamótum, samkvæmt greiningardeildinni.   Veltan fyrir síðasta ár er 13% meiri en fyrir árið 2006 þegar heildarvelta nam 4.393 milljörðum króna.   “Ljóst er að samhliða því sem þátttakendum á íslenska gjaldeyrismarkaðinum fjölgar og tengslin við alþjóðlega gjaldeyrismarkaði aukast munu umsvif og dýpt gjaldeyrismarkaðarins vaxa líkt og endurspeglast í sífellt aukinni veltu á milli ára. Hafa verður í huga að heildaraukning veltu á gjaldeyrismarkaði er þó líklega mun meiri en þessar tölur segja til um þar sem velta utan millibankamarkaðar hefur aukist undanfarin misseri,” segir greiningardeildin. Viðburðaríkt ár fyrir krónu Hún segir að síðasta ár var viðburðaríkt fyrir íslensku krónuna sem sveiflaðist mikið innan ársins. Á fyrri hluta síðasta árs styrktist krónan um 15 % frá áramótum talið. Á seinni hluta ársins hefur gengisþróun krónunnar að mestu leyti ráðist af framvindu á alþjóðamörkuðum sem hafa frá miðju síðustu ári verið í óvissuferð vegna vandræða tengt lausafjárþurrð og eignaverðsfalli. Eins og kunnugt er stendur óvissuferðin enn yfir. Þessi óvissa varð til þess að krónan lækkaði um tæplega 8% frá miðjum júlímánuði, en var þó ríflega 7% sterkari í árslok en í upphafi árs.