„Ef fyrirtæki senda út greiðslu í dag, þá er meginreglan sú að það myndi koma inn á reikning næstkomandi föstudag. Þetta er bara reglan og hefur alltaf verið. Það er alltaf tveggja daga töf,“ segir Brynjólfur Gunnarsson, starfsmaður á millibankasviði Nýja Landsbankans, en mikið hefur borið á kvörtunum fólks og fyrirtækja, undanfarna daga, þess efnis að hvorki sé hægt að greiða né fá greitt vegna viðskipta við útlönd.

Sökum gjaldeyrisskömmtunar Seðlabanka Íslands fer enginn gjaldeyrir nú úr landi nema til greiðslu á reikningum og þeim sem það vilja gera er gert að fylla út beiðni um gjaldeyrisflutning.

„Gjaldeyrisviðskiptin fara fyrst í gegnum vissa síu hér þar sem menn taka ákvörðun um hvort færslan sé tengd verslun og viðskiptum eða ekki. Listinn er síðan sendur á Seðlabankann sem tekur endanlega ákvörðun,“ segir Brynjólfur og bætir við að þar séu færslurnar afgreiddar í gegnum kerfi sem sé afskaplega seinvirkt.

Það er því ekki lengur spurning um mínútur hve lengi beiðnin er að fara í gegn heldur klukkustundir sökum tregðunnar í gjaldeyrismiðlunarkerfi Seðlabankans. Hvergi sé það þó spurning um daga nema þá hvað varðar hina hefðbundnu tveggja daga töf á gjaldeyrisviðskiptum.

Við þetta er því síðan að bæta að Brynjólfur á von á að Nýi-Landsbankinn fái sína eigin gjaldeyrisreikninga í næstu viku.

Þá muni færslurnar ekki lengur verða keyrðar í gegnum kerfi Seðlabankans og ferlið því verða hraðara.