Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri upplýsir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að hún ætli að leggja til á næstu dögum, að annar áfangi að gjaldfrjálsum leikskóla komi til framkvæmda um næstu áramót en ekki næsta haust, eins og til stóð. Með öðrum orðum: fyrir kosningar.

Í þessum áfanga felst að fimm ára börn fái fimm fríar stundir á dag og önnur börn tvær stundir.

Steinunn spáir því í viðtalinu að Frjálslyndi flokkurinn komi ekki að manni í borgarstjórn í kosningunum. Hún telur að flokkurinn þrífist best í tveggja framboða kerfi R-lista og D-lista en muni núna "klemmast á milli".

Hún telur stöðu sína fyrir prófkjör Samfylkingarinnar í febrúar býsna sterka og segist ekki kippa sér upp við "hrakspár spjallþáttaspekinga". Þá segir hún aðspurð um blaðaauglýsingar Stefáns Jón Hafstein á dögunum að yfir þeim hafi verið "Stefáns-stíll" en hún hafi dálítið annan stíl.

Sjá nánar viðtal við Steinunni í Viðskiptablaðinu í dag.