Í lögfræðiáliti sem Ívar Pálsson hæstaréttarlögmaður vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að réttur landeiganda til að innheimta gjald vegna umferðar gangandi vegfaranda takmarkist einungis af samningum eða af ákvæðum um almannarétt.

Ívar vann álitið fyrir þremur árum, en mikil umræða hefur spunnist um málið í kjölfar þess að nú eru rukkaðar 400 krónur fyrir að ganga upp á Helgafell á Snæfellsnesi að því er segir í frétt Morgunblaðsins.

Í álitinu segir Ívar að landeiganda sé heimilt, hafi ekki verið samið um annað, að taka gjald vegna umferðar um land, nema um sé að ræða óræktað land utan byggðar eða friðlýst svæði, enda kveði friðlýsing á um umferðarrétt almennings.

Jafnframt segir í álitinu að reglurnar séu þær sömu ef um sé að ræða skipulagðar hópferðir í atvinnuskyni, almennar reglur gildi um þá. Í dag fer fram gjaldtaka af ferðamönnum víða um land, má þar nefna Kerið, og við hellinn Víðgemli í Borgarfirði.