*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 23. september 2021 13:31

Gjaldið hélt í atrennu númer tvö

ÍL-sjóður þarf ekki að endurgreiða lántökum uppgreiðslugjald sem var ekki í samræmi við ákvæði laga.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Fyrirkomulag uppgreiðslugjalds ÍL-sjóðs þýðir ekki að sjóðnum beri að endurgreiða lántökum það. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt dómi sem kveðinn var upp í gær. Ríflega átta milljarðar króna voru í húfi fyrir ÍL-sjóð og þar með íslenska ríkið og lántaka.

Á síðasta ári voru kveðnir upp tveir dómar í héraði þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að uppgreiðslugjald gamla Íbúðalánasjóðs hefði ekki staðist lög. Málin tvö fengu flýtimeðferð upp í Hæstarétt og voru dómar kveðnir upp í þeim í vor. Í öðru málinu var ríkið sýknað en hinu málinu var vísað heim í hérað sökum réttarfarsannmarka. Í síðara málinu voru málsástæður eilítið frábrugðnar hinu fyrra og því ekki loku fyrir það skotið að niðurstaðan hefði orðið önnur.

Í síðara málinu var byggt á því að tiltekið ákvæði lánasamningsins hefði verið í andstöðu við tiltekið ákvæði í þágildandi lögum um neytendalán. Í fyrstu atrennu í héraði var komist að þeirri niðurstöðu að svo hefði verið en lítt rökstutt hvaða afleiðingar það ætti að hafa. Af þeim sökum var dómurinn ómerktur í Hæstarétti og málinu heimvísað.

Í dómi héraðsdóms nú er vísað í dóm Hæstaréttar frá í vor og bent á að þar hafi því verið slegið föstu að umrætt ákvæði samningsins hefði verið í andstöðu vil gildandi lög þess tíma. Báðir aðilar voru sammála um að ágalli hefði verið á skuldabréfinu en aftur á móti var deilt um það hvaða áhrif sá galli ætti að hafa.

Höfðu hag af tilvist gjaldsins

Stefnendur málsins, það er lántakarnir, byggðu á því að umþrætt uppgreiðslugjald félli undir lántökukostnað en því var hafnað af héraðsdómi þar sem skýr greinarmunur væri gerður á slíkum kostnaði og uppgreiðsluþóknun. Eðli málsins samkvæmt væri óeðlilegt að reikna uppgreiðslugjald, sem óvissa væri um, inn í árlega hlutfallstölu kostnaðar. Málsástæðum sem byggðu á ógildingarreglum samningaréttar hafði þegar verið hafnað í fyrri dómi Hæstaréttar og var það lagt til grundvallar hér.

„Eftir því sem fram kom fyrir dómi varð síðan tilefni uppgreiðslunnar það að stefnendur skiptu um skoðun þar sem þau töldu hag sínum betur borgið með því að taka eðlisólíkt lán, óverðtryggt lán, sem þau tóku hjá lífeyrissjóði, í þeim tilgangi að fjármagnskostnaður yrði minni ef vaxta- og verðlagsþróun yrði hagfelld næstu 38 árin,“ segir í dóminum. Sú ákvörðun hefði ekki verið tekin í nauð og í raun ekkert sem hefði knúið á um slíka tilfærslu enda hefðu kjör lánsins ekki versnað.

Þá benti dómurinn á að þegar parið tók umrætt lán hefði það verið þeim hagfelldara að taka lán með uppgreiðsluþóknun. Með henni hefði lánið borið 5,05% ársvexti en hefði ella borið 5,55% ársvexti án þóknunarinnar. Í ljósi þess var ekki talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að þau myndu greiða umrætt gjald.

ÍL-sjóður var því sýknaður af kröfunni en málskostnaður var felldur niður milli aðila.