Ráðgert er að tekjur af gjaldtöku fyrir gegnumakstur í Vaðlaheiðargöngum verði frá 800 milljónum upp í milljarð árlega að því er Morgunblaðið greinir frá. Göngin eiga að koma í stað þjóðvegar yfir lágheiðina Vaðlaheiði, sem áfram verður opin.

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga segir að vonast sé til að gjaldtaka geti hafist í göngin á sama tíma og þau verða opnuð. Stefnt er að opnun 1. desember næstkomandi, en ekki er gert ráð fyrir tollahliði fyrir umferð í gegnum göngin líkt og í Hvalfjarðargöngum heldur mun myndavélakerfi taka myndir af númeraplötum bíla.

„Eftir að myndin er tekin les hugbúnaður númeraplötuna og kannar hvort viðkomandi bílnúmer sé í áskrift. Ef ekki er eigandi bílsins fundinn í eigendaskrá og rukkunin send í heimabanka hans,“ segir Valgeir sem segir að það dragi úr slysahættu að ekki þurfi að hægja á sér við tollaskýli.

„Það má gera ráð fyrir því að bílar sem vega yfir þrjú og hálft tonn verði rukkaðir um allt að sex þúsund krónur en bílar sem vega minna verði rukkaðir um tæplega tvö þúsund krónur. Þetta er því um tvöfalt dýrara en þegar ekið er um Hvalfjarðargöngin enda var þetta tvöfalt lengri og dýrari framkvæmd.“