Hið svokallaða skimunargjald, sem felur í sér að ferðamenn sem koma til landsins frá 1. júlí nk. þurfi að greiða 15 þúsund krónu gjald fyrir sýnatöku vegna COVID-19 við komu til landsins, hefur verið nokkuð umdeilt. Hafa þónokkrar gagnrýnisraddir borist frá ferðaþjónustuaðilum, sem mörgum hverjum þykir gjaldið of hátt og telja að það geti fælt ferðamenn frá því að ferðast til Íslands. Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótel Rangár, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, hefur hins vegar aðra sýn á málið en margir af kollegum hans í ferðaþjónustunni.

„Ég skil sjónarmið þeirra sem hafa gagnrýnt gjaldið, en ástæðan fyrir því að ferðamennskan hrundi var sú að yfirvöld um heim allan höfðu áhyggjur af því að þegnar þeirra gætu smitast á ferðalögum og þannig borið veiruna með sér. Sóttvarnarsjónarmið voru sett í algjöran forgang og mér finnst full ástæða til að hafa þau sjónarmið áfram í forgangi enn um sinn. Það að fara þessa leið sem Íslendingar ætla að feta tel ég eiga að vera söluvæna aðgerð. Það er þá mikilvægt að við útskýrum fyrir okkar erlendu viðskiptavinum að með því að láta þá taka þátt í þessari skimun séum við að verja þá á sama tíma og við erum að verja okkar eigin landsmenn.

Ég tel að þessi skimunarkostnaður verði ekki takmarkandi þáttur í því hverjir komi til Íslands, heldur er það frekar fjöldinn sem hægt er að skima á degi hverjum, hvort það sé hagkvæmt fyrir flugfélögin að fljúga hingað og að ferðaþjónustan standi þannig að hún geti tekið á móti því fólki með skynsamlegum hætti. 15 þúsund króna gjald í Keflavík, sem tímabundið ástand, mun ekki skipta sköpum."

Nánar er rætt við Friðrik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .