Luis Bárcenas, fyrrverandi gjaldkeri Lýðflokksins á Spáni, verður yfirheyrður í dag vegna ásakan þess efnis að hann hafi stýrt leynilegu bókhaldi sem hélt í áraraðir utan um greiðslur frá stjórnendum fyrirtækja til æðstu manna flokksins. Í skiptum fyrir greiðslurnar fengu fyrirtækin samninga við ríkið.

Breska dagblaðið Guardian segir í umfjöllun sinni um málið að allt að 22 milljónir evra, jafnvirði um 3,8 milljarða íslenskra króna, hafi legið á leynireikningunum. Málið hefur komið Manuel Rajoy, forsætisráðherra Spánar, afar illa enda eru á leynireikningunum skráðar 35 útborganir til hans á síðastliðnum 12 árum. Af leynireikningunum eiga að hafa runnið í vasa hans rúmar 322 þúsund evrur, jafnvirði í kringum 55 milljóna króna. Ýmsar aðrar sporslur eru sömuleiðis skrifaðar á forsætisráðherrann á borð við jakkaföt og fleira. Krafist hefur verið afsagnar Rajoy vegna málsins.

Guardian hefur upp úr spænska dagblaðinu El País í morgun að rannsókn saksóknara á Spáni beinist einkum að Bárcenas fremur en Rajoy. Þá er Jeús Sepúlveda, fyrrverandi bæjarstjóri í Pozuelo í nágrenni Madrid, sömuleiðis undir smásjá yfirvalda en hann og fjölskylda hans er taldar hafa fengið háar fjárhæðir af leynireikningunum. Sepúlveda er fyrrverandi eiginmaður Önu Mato, heilbrigðisráðherra Spánar. Hún vísar því á bug í samtali við blaðið að hún hafi fengið greiðslur úr leynisjóðum flokksins.