„Miðað við raungengið út frá hlutfallslegu verðlagi á síðasta ársfjórðungi 2011 mælist raungengið nú um 2-14% undir jafnvægisgili sínu. Það samsvarar því að eðlilegt skiptigengi krónunnar gagnvart evru liggi á bilinu 135-155 krónur gagnvart evru,“ segir í nýrri skýrslu Seðlabankans, Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

Við upptöku evru skiptir miklu máli á hvaða gengi krónunum er skipt fyrir evru. Í skýrslu Seðlabankans segir að lögð sé áhersla á mikilvægi þess að skiptigengið sé ákvarðað þannig að raungengið sé sem næst jafnvægisgildi sínu þannig að hvorki komi til ofþenslu né versnandi samkeppnisstöðu við inngöngu í myntsvæði.

„Því er mikilvægt a sveigjanleiki raungengis sé enn fyrir hendi þótt nafngengisbreytingar séu ekki lengur mögulegar. Reynsla ýmissa ríkja í kjölfar aðildar að evrusvæðinu sýnir glögglega hvernig alvarleg vandamál geta komið upp í kjölfar aðildar að myntbandalagi ef ekki er hugað að samkeppnisstöðu samkeppnisgreina og ytri jöfnuði þjóðarbúsins,“ segir í nýrri gengisskýrslu.