Nokkrir lífeyrissjóðir fóru mjög óvarlega og virðast þeir ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu tæpt bankarnir stóðu þegar þeir gerðu samninga við þá um gjaldmiðlavarnir. Þvert á hvert stefndi þá hafi sjóðirnir talið að gengi krónunnar myndi styrkjast.

Nefnd sem skoðað fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna í aðdraganda hrunsins segir í skýrslu sinni að eftir á að hyggja hafi verið ljóst að þegar komið var fram yfir mitt ár 2007 hafi verið mjög áhættusamt að auka gjaldmiðlavarnir og hefðu sjóðirnir átt að leita ráðgjafar um það áður en þeir gerðu samningana. Að sama skapi hefðu bankarnir átt að vara sjóðina við stöðunni líkt og rammasamningar um gjaldmiðlavarnir kváðu á um.

Mikilvægt að gera samning um uppgjör

Þess er skemmst að minnast að fyrir síðustu helgi greindi Lífeyrissjóður verzlunarmanna frá því að hann ætli í mál við slitastjórnir Kaupþings og Glitnis vegna uppgjörs á vörnum sem þessum. Lífeyrissjóðurinn hefur lagt á þriðja tug milljarða króna til hliðar vegna uppgjörsins. Hann miðar við krónugengið 175 í uppgjöri sínu. Slitastjórnir gömlu bankanna miða hins vegar við gengisvísitöluna um og yfir 200.

Nefndin segir í umfjöllun sinni um gjaldmiðlavarnir lífeyrissjóðanna skorta á að samningar hafi verið gerðir um uppgjör varna og mælir til þess að sjóðirnir sameinist um að koma slíkum skilmálum á þegar gjaldmiðlavarnir verði teknar upp að nýju.