Sérfræðingar á markaði segja ákaflega erfitt að spá fyrir um framvindu skuldabréfamarkaðsins á Íslandi á næstunni. Margir telja þó að fjárfestar muni sækja í útgáfu stuttra ríkispappíra - t.d. víxla. Vangaveltur eru um hvernig eigi að taka tillit til hugsanlegra gjaldmiðlaskipta. Það getur verið óhentugt að vera fastir með ríkið í löngum verðtryggðum íslenskum vöxtum, ef hér verða evra eða dollar eftir tiltekin árafjölda.

,,Eftirspurnin liggur sennilega í stuttum ríkispappírum, en lífeyrissjóðirnir vilja áfram í verðtryggð bréf. Ríkið hefur ekki gefið út verðtryggð skuldabréf í mörg ár, þannig að það verður athyglivert að sjá hvernig þetta verður," sagði einn sérfræðingur.   Einn sérfræðingur benti á að nú hefði skapast athyglisvert tækifæri til þess að að hrista alveg upp í markaðnum og byggja upp fyrirmyndarmarkað. ,,Við höfum verið með vonlausan skuldabréfamarkað fyrir vaxtamyndun. Það skiptir miklu máli að hann verði "rétt " upp byggður og nú er tækifærið."