Gert er ráð fyrir að kröfuhafar Kjalars hefji innheimtumál á hendur félaginu á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamninganna innan skamms.

Að sögn Kristins Hallgrímssonar hrl. er gert ráð fyrir að málið fari fyrir héraðsdóm fyrir áramót og niðurstaða fáist í Hæstarétti fyrir lok árs 2010. Kristinn sagði að sátt væri milli aðila að fara þessa leið en félagið getur ekki stefnt skilanefndunum.

Eins og hefur komið fram þá fór Egla, dótturfélag Kjalars, í formlega nauðasamninga en að sögn Kristins var ekki talin þörf á því gagnvart Kjalari þar sem einungis er um að ræða þrjá kröfuhafa: Nýja Kaupþing og skilanefndir Kaupþings og Glitnis.

Nauða samningum Eglu er lokið og lánardrottnar félagsins eru orðnir eigendur þess. Þær eignir sem koma inn til Kjalars greiðast út til kröfuhafa Eglu og má nefna að fyrir skömmu gekk Kjalar frá sölu á Iceland Seafood fyrir skömmu og líður senn að því að gert verði upp, að sögn Kristins. Starfsemi Kjalars miðast eingöngu við það að losa um eignir.