Atlantsskip-Evrópa ehf., skilja eftir sig nærri 900 milljóna króna skuldir eftir gjaldþrot á síðasta ári en skiptum lauk þann 12. nóvember. Eignir félagsins dugðu ekki fyrir skiptakostnaði.

Sáralitlar eignir

Samkvæmt tilkynningu á vefsíðu Lögbirtingablaðsins voru Atlantsskip-Evrópa ehf., kt. 580602-3710, Vesturvör 29, Kópavogi tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2009. Sama dag var Jón Sigfús Sigurjónsson hdl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Lýstar kröfur í búið námu 891.592.918 krónum og var skiptum á búinu lokið 12. nóvember sl. Óverulegar eignir fundust í búinu sem hrukku ekki fyrir skiptakostnaði. Var skiptum því lokið samkvæmt. 155. gr. l. nr. 21/1991.

Stofnað 2002

Atlantsskip-Evrópa hóf rekstur í apríl 2002 og var tilgangur félagsins að stunda millilanda og strandsiglingar til Evrópu og síðar um allan heim. Mánuði seinna var siglt á einu leiguskipi á 10 daga fresti frá Kópavogi til Esbjerg í Danmörku og Rotterdam í Hollandi og var Stefán Kjærnested þá framkvæmdastjóri félagsins.

Grunnurinn voru flutningar fyrir herinn

Þetta félag var hins vegar stofnað upp úr Atlantsskipum sem stofnað var 1998. Það félag og systurfélag þess í Bandaríkjunum, Trans Atlantic Lines, sá um flutninga fyrir fyrir herstöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þegar herinn fór endanlega frá Keflavíkurfluguvelli 30. september 2006 misstu Atlantsskip mikilvæga stoð úr rekstrinum.

Buðu lægri flutningsgjöld

Atlantsskip náðu til sín töluverðum viðskiptum frá Eimskipafélaginu og Samskipum enda var boðið upp á mun lægri flutningsgjöld. Náði félagið einnig til sín auknum viðskiptum með flutningum til og frá Bandaríkjunum.

Fljótlega komu upp harðar deilur við Sjómannafélag Reykjavíkur sem taldi að Atlantsskip virtu ekki íslenska kjarasamninga á skipum í millilandasiglingum á milli Íslands og annarra landa.

Síðustu ár fór að halla verulega undan fæti og fór svo að á árinu 2008 var gerður samningur um að Eimskip tækju yfir alla flutninga félagsins. Þann 18. mars 2009 var skrifstofu Atlantsskipa lokað.

Lítið um ársreikningaskil

Þó að um heilt skipafélag væri að ræða var ársreikningum ekki skilað fyrir árið 2002 fyrr en þann 17. ágúst 2007. Samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra var síðan ekki skilað neinum ársreikningum það sem eftir var af líftíma félagsins, eða fyrir árin 2003, 2004, 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009.

Afsprengið Atlandsolía

Atlantsolía varð til sem afsprengi af Atlantsskipum og hóf harða samkeppni á eldsneytismarkaði. Var það félag stofnað í júní 2002 og starfar enn. Haustið 2003 keypti Atlantsolía lóðina að Kópavogsbraut 115. Sala á díselolíu hófst þar 2. desember 2003 og 8. janúar 2004 var fyrsti söludagur með bensín.

Flutti félagið sjálft inn sitt eldsneyti þar til á síðasta ári er samstarf var tekið upp við Skeljung hf. um flutning og áfyllingu á olíu. Heimilaði Samkeppniseftirlitið tímabundna undanþágu frá samkeppnisreglum vegna þess samstarfs í ársbyrjun 2010.