Gjaldþrot Ræsis hf., sem stofnað var 1942 og þekktast var fyrir að vera áratugum saman umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, nam tæpum 442 milljónum króna.

Í heild greiddust rúmar 88,2 milljónir upp í kröfur eða tæp 20%. Lauk skiptum með úthlutunargerð úr þrotabúinu 7. apríl sl. og greiddust tæpar 48,4 milljónir króna upp í skiptakostnað og forgangskröfur.

Þá greiddust rúmar 39,8 milljónir króna upp í kröfur upp á tæpar 369,7 milljónir samkvæmt 113. gr. gjaldþrotalaga eða 10,78%. Ekkert greiddist upp í aðrar kröfur.

Askja tók við Benz-umboðinu

Þess má geta að Askja hf., fyrrum systurfélag Heklu, tók við umboði fyrir Mercedes-Benz á Íslandi í kjölfar þess að viðræður Ræsis við DaimlerChrysler AG um endurnýjun sölusamninga sigldu í strand í febrúar 2004.

Askja tók þó ekki formlega til starfa fyrr en um mánaðamótin febrúar/mars 2005, en félagið er einnig með umboð fyrir Kia-bifreiðar. Í júlí 2008 keypti HIG ehf., móðurfélag innflutnings- og þjónustufyrirtækisins Íshluta ehf. í Mosfellsbæ, allt hlutafé Ræsis hf. og Ræsis fasteigna hf., sem átti og rak nýjar höfuðstöðvar Ræsis við Klettháls 11 í Reykjavík.

Hinn 25. ágúst 2008 keypti eignarhaldsfélagið Festing verkstæðisbygginguna á Krókhálsi af Ræsi. Það er í eigu félaga sem tengjast Ólafi Ólafssyni, stjórnarformanni Samskipa. Askja keypti um leið allt innvols hússins, tölvur, tæki og einnig varahlutalager, að undanskildum nokkrum bílum sem Ræsir var með í sölu. Í kjölfar þessa gjörnings var starfsemi Ræsis lögð niður. Stór hluti starfsmanna Ræsis, m.a. af verkstæði, voru um leið ráðnir til Öskju.