Framtíð Baugs er óviss eftir að tilkynnt var um greiðslustöðvun Stoða (áður FL Group) í gær.

Þetta kemur fram í frétt Dow Jones fréttaveitunnar um stöðu Baugs og Stoða í ljósi yfirtöku ríkisins á Glitni í gær, en eins og fram kom í gær óskuðu Stoðir eftir greiðslustöðvun í kjölfarið.

Í frétt Dow Jones er bent á eignartengslin milli félaganna, þ.e. Baugs, Stoða og Glitnis og segir í fréttinni að enn hafi ekki verið gengið frá kaupum Stoða á 39% hlut í Baug fyrir um 25 milljarða króna.

Þá kemur fram að Baugur hafi, í víðamikilli útrás í Bretlandi, Danmörku og í Bandaríkjunum, þanið efnahagsreikning sinn til fulls. Til stóð að stjórn Stoða kysi um kaup félagsins í Baugi í dag.

Þá segir í frétt Dow Jone að það sé mál manna í viðskiptalífinu að Baugur renni aftur inn í Styrk Invest, sem er í meirihlutaeigu Gaums, sem er í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Baugur treysti á aðkomu Stoða

Dow Jones hefur eftir Eggert Aðalsteinssyni hjá Greiningardeild Kaupþings að atburðir gærdagsins hafi verið mikill áfall fyrir eigendur Baugs. Þeir hafi treyst á aðkomu Stoða.

Þá kemur fram að hluthafar Baugs muni nú að öllum líkindum þurfa að leita nýrra fjárfesta eða selja eignir sínar í einhverjum mæli.

Dow Jones fréttaveitan hefur eftir Eggert að hvorki sé hægt að útiloka uppsagnir né sölu eigna en Baugur á um 3.700 verslanir og hjá félaginu starfa um 53 þúsund manns að sögn Dow Jones.

„Þetta mun að öllum líkindum veikja fjárhagsstöðu [Baugs] og hluthafa þess. Það er líklegt að framundan sé sala á eignum og uppsagnir,“ hefur Dow Jones eftir Eggert.

„Félagið hefur selt eitthvað af eignum í Bretlandi á undanförnum mánuðum og ég býst við að þeir muni halda því áfram.“

Í frétt Dow Jones er rifjað upp gengi nokkurra félaga í eigu Baugs, svo sem Woolworths og Debenham's auk þess sem fjallað er stuttlega um sölu Baugs á Booker frá því í júní.

Þá hefur Dow Jones eftir Eggert að Jón Ásgeir muni verja Baug hvað best hann getur, enda fjölskyldudjásnið.

„Ég hugsa að hann muni gera allt hvað hann getur til að halda félaginu innan fjölskyldunnar þó ekki sé útilokað að hann leiti nýrra hluthafa,“ segir Eggert í samtali við Dow Jones fréttaveituna.