Í gær var greint frá því að stjórn rússneska olíufyrirtækisins Yukos ætli að kalla saman neyðarfund hluthafa þar sem rætt verði hvort fara eigi fram á greiðslustöðvun eða lýsa félagið hreinlega gjaldþrota. Samkvæmt erlendum fréttamiðlum greindi forstjóri Yukos, Stephen Theede, frá því á miðvikudag að fundurinn verði haldinn 20. desember.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemurfram að áform um neyðarfundinn koma í kjölfar nýrra krafan skattayfirvalda í Rússlandi fyrr í vikunni á hendur félaginu upp á 6,7 milljarða dollara til viðbótar fyrri kröfum sem í heild nema 17,6 milljarða dollara eða um 1.210 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt frétt Reuters gaf forstjórinn ekkert upp um það hvort hugsanlega megi vænta yfirlýsingar um gjaldþrot fyrir desember. Hann hefur hins vegar sagt að ekki verði hægt að búa við þær aðstæður sem nú eru uppi mikið lengur. Forstjórinn hefur einnig upplýst að Youkos greiði nú engar skuldir og ekkert annað en snertir daglegt viðhald á framleiðslubúnaði, rafmagn, símareikninga og laun. Varðandi opinber gjöld, þá greiðir félagið nú aðallega það sem snertir útflutningstolla.

Forstjórinn sagði einnig á miðvikudag að áætlað væri að halda annan sérstakan fund í janúar, en þá á að kjósa nýja stjórn í félaginu.

Í raun má segja að Yukos sé fyrir nokkru komið upp að vegg því fjármálastjóri Yukos sagði þann 28. október að félagið réði ekki lengur við aðstæðurnar þar sem öll innkoma væri tekin út úr rekstrinum til greiðslu skattaskulda.

Margir fjármálasérfræðingar telja að gjaldþrot sé besta niðurstaðan fyrir Yukos ef það gæti komið í veg fyrir að aðalframleiðsluhluti fyrirtækisins Yuganskneftegaz, yrði seldur undan fyrirtækinu á spottprís. Samt sem áður telja fjármálasérfræðingar að gjaldþrot komi ekki til með að hreinsa öll vandamál Yukos út af borðinu.